Umhverfismálin óvíða í meiri forgrunni
„Ábyrg afstaða til umhverfismála og samþætting þeirra við aðra þætti í rekstri fyrirtækja skipta æ meira máli. Óvíða í atvinnulífinu eru umhverfismálin líka í meiri forgrunni en einmitt í ferðaþjónustunni. Við vitum öll að náttúran er ein helsta auðlind atvinnugreinarinnar og til að svo megi áfram verða um ókomna framtíð verðum við að umgangast þetta fjöregg okkar af nærgætni og virðingu. Allar athafnir okkar mannanna hafa árif á umhverfið með einum og öðrum hætti. Við verðum þannig að leitast við að umgangast náttúru landsins af auðmýkt og á sjálfbæran hátt,“ sagði Ragnheiður Elín meðal annars í ávarpi sínu.
Í fararbroddi í umhverfismálum
Bílaleiga Akureyrar - Höldur ehf. er í dag stærsta bílaleiga landsins. Fyrirtækið hefur lengi verið í fararbroddi í umhverfismálum bílaleigufyrirtækja hérlendis og hefur fyrst þeirra fengið umhverfisstjórnunarkerfi sitt vottað skv. staðlinum ISO 14001. Þá er bílaleigan með gullmerki í umhverfiskerfi Vakans.
Græn akstursráð
Umhverfisáherslan er mjög sýnileg á heimasíðu fyrirtækisins og þar er m.a. að finna „græn akstursráð“. Einnig er umhverfisskýrsla birt árlega. Þar má finna upplýsingar um helstu umhverfisþætti í starfseminni og hvernig frammistaðan hefur breyst milli ára.
Minni kolefnislosun
Ekki verður annað séð en að markmiðum fyrirtækisins í umhverfismálum sé vel fylgt eftir. Þannig hefur meðallosun CO2 frá bifreiðum fyrirtækisins farið lækkandi umfram væntingar. Hjá Bílaleigu Akureyrar er hægt að leigja bæði metanbíla og rafbíla.
Hægt að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum
„Þannig er það mat dómnefndar að bílaleigan uppfylli með prýði öll þau viðmið sem gera fyrirtæki verðug þess að hljóta umhverfisverðlaun Ferðamálastofu. Bílaleiga Akureyrar er vel að þeim verðlaunum komin, enda augljóslega í fararbroddi hérlendis í grein þar sem hægt er að draga verulega úr neikvæðum umhverfisáhrifum með markvissu starfi,“ segir m.a. í rökstuðningi dómnefndar.
Frá afhendingunni. Talið frá vinstri: Elías Bj. Gíslason, settur ferðamálastjóri; Steingrímur Birgisson og Bergþór Karlsson frá Bílaleigu Akureyrar; Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála; Jón Gestur Ólafsson, Bílaleigu Akureyrar og Björn Jóhannsson, umhverfisstjóri Ferðamálastofu.