Okkur hjá Bílaleigu Akureyrar er mikilvægt að starfsemi fyrirtækisins sé í sátt við samfélagið og umhverfið í heild. Við vinnum því að stöðugum umbótum í umhverfismálum til lágmarka umhverfisáhrif af rekstri fyrirtækisins. Bílaleiga Akureyrar stuðlar að aukinni umhverfisvitund starfsmanna og leggur áherslu á ábyrga nýtingu auðlinda og lágmörkun úrgangs og losun gróðurhúsalofttegunda.
Höldur leggur áherslu á ábyrga nýtingu auðlinda og lágmörkun úrgangs og losun gróðurhúsalofttegunda. Frá árinu 2009 hefur Höldur unnið í samræmi við umhverfisstefnu félagsins þar sem áhersla er lögð á stöðugar umbætur í umhverfismálum til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum í rekstri Hölds. Umhverfisþættir félagsins eru vaktaðir og greindir í samræmi við kröfur umhverfisstjórnunarstaðalsins ISO 14001 og helstu umhverfisþættir byggja á orkunotkun, lækkun losunar vegna aksturs, úrgangi þ.m.t. spilliefnum, náttúru og landgræðslu. Orkuskipti í samgöngum er veigamikill þáttur í að draga úr losun og fyrirtækið hefur sett árleg markmið um aukið hlutfall visthæfra ökutækja (rafmagns- og tengiltvinnbíla) í heildarflota fyrirtækisins en þess má geta að í markmiðum fyrir árið 2023 er einungis miðað við rafbíla eða aðra hreinorkubíla.
Höldur ehf. starfar á íslenskum bílaleigu- og bílgreinamarkaði og var fyrirtækið stofnað árið 1974. Auk Bílaleigu Akureyrar sem er með afgreiðslur og útibú um allt land, rekur fyrirtækið alhliða bílaþjónustu á Akureyri. Má þar nefna dekkjaverkstæði ásamt bílaþvottastöð, bílasölu með nýja og notaða bíla ásamt bifreiða- og tjónaviðgerðaverkstæði. Höldur er sölu- og þjónustuaðili á Norðurlandi fyrir bílaumboðin Heklu og Öskju. Þá á félagið þónokkrar fasteignir sem það ýmist nýtir í eigin rekstur eða til útleigu. Bílaleiga Akureyrar er umboðsaðili Europcar bílaleigukeðjunnar á Íslandi.
Umhverfisuppgjör Hölds gerir grein fyrir losun gróðurhúsalofttegunda frá þeim rekstrareiningum sem fyrirtækið hefur yfir að ráða og upplýsingar um losun eru samkvæmt okkar bestu vitund og gögnum sem berast frá þjónustuaðilum. Við útreikninga á kolefnisspori félagsins er stuðst við reiknivél Eflu og Festu miðstöð um samfélagsábyrgð sem byggir á aðferðafræði Greenhouse Gas Protacol og var síðast uppfærð í nóvember 2022. Losun vegna eigin aksturs bifreiða félagsins kemur fram í umfangi 1 og raforkunotkun í umfangi 2. Losun vegna flugs starfsmanna, urðun úrgangs og eldsneytisnotkunar viðskiptavina kemur fram í umfangi 3 en ekki eru mældir fleiri þættir í umfangi 3 að svo stöddu.
Hlutfall visthæfra ökutækja, raf-og tengiltvinnbíla af heildarflota jókst úr 16,2% árið 2021 í 25% árið 2022 og fyrirtækið átti í árslok 456 rafbíla. Losun vegna eigin aksturs verður að mestu til vegna tilfærslu bifreiða í eigu félagsins milli staða en í rafbílar eru notaðar í akstur og ferðir starfsmanna vegna vinnutengdra ferða á stærstu starfsstöðvum félagsins.
Raforkunotkun á hvern fermetra fasteigna jókst um 3% milli 2021 og 2022 en taka þarf mið af mikilli fjölgunnar rafbíla í bílaflota félagsins sem hlaðnir eru á starfsstöðvum fyrirtækisins. Á árinu vann félagið að uppbyggingu hleðsluinnviða með uppsetningu á 11 hleðslustöðvum og er nú með yfir 60 hleðslustöðvar á sex starfsstöðvum sem hefur í för með sér aukna raforkunotkun.
Tveir úrgangsliðir eru mjög breytilegir milli ára og hafa mikil áhrif á endurvinnsluhlutfall en það er grófur úrgangur vegna framkvæmda og úrgangur frá olíu- og sandgildrum. Ef þessi liðir eru teknir út úr heildarúrgangi er niðurstaðan lýsandi fyrir flokkun og endurvinnslu í daglegum rekstri eða 88,4% endurvinnsluhlutfall.
Starfsmenn Hölds gróðursetja árlega milli 1500 og 3000 tré og í heildina hafa starfsmenn gróðursett yfir 33.000 trjáplöntur. Árið 2022 gróðursettu starfsmenn félagsins 3050 trjáplöntur. Binding vegna eigin gróðursetningar 305 tCO2í, er ekki vottuð og því um vænta bindingu að ræða.
Opnunartímar | Hafa samband | Mínar síður | Langtímaleiga | Veftré | English
Höldur er leyfishafi Europcar International á Íslandi.
© Efni þessa vefs er varið höfundarrétti og afritun með öllu óheimil