Spurt og svarað

Að leigja bílaleigubíl

 • Hvað er leigusamningur?

  Leigusamningur er formlegt samkomulag milli Hölds - Bílaleigu Akureyrar og leigutaka sem undirritað er við upphaf leigu. Í leigusamningi koma fram leiguskilmálar, upplýsingar um ökutæki, aukahluti og verð.

 • Getur starfsmaður útskýrt stjórntæki bílsins fyrir mér?

  Já, hikaðu ekki við að biðja starfsfólk um aðstoð ef eitthvað er óvíst varðandi stjórntæki bílsins. 

 • Á ég að kanna ástand bílsins þegar ég skila honum?

  Ætlast er til að leigutaki kanni hvort bílinn sé í jafn góðu ástandi við skil og við upphaf leigu. Hafi tjón orðið á bílnum er leigutaka skylt að tilkynna leigusala um það tafarlaust.

 • Er hægt að framlengja leigutíma?

  Hægt er að framlengja leigutíma við upphaf leigu eða meðan á leigu stendur hafi fengist fyrir því samþykki Bílaleigu Akureyrar – Europcar. Hægt er að hringja eða koma á næsta afgreiðslustað til að framlengja leigu.

 • Sektir

  Leigutaki er ábyrgur fyrir öllum stöðumælasektum, veggjöldum, bílastæðagjöldum sem og sektum fyrir umferðalagabrot. Leigusali áskilur sér rétt til að innheimta þóknun hjá leigutaka af kreditkorti hans, samkvæmt verðskrá leigusala, komi til þess að leigusali verði að greiða sektir fyrir leigutaka og/eða upplýsa yfirvöld um leigutaka vegna umferðalagabrota.

 • Þarf að skila bílnum fullum af eldsneyti?

  Já, það á að skila bílnum með fullum tanki af eldsneyti. Ef bíl er ekki skilað með fullum tanki af eldsneyti er kreditkort leigutaka skuldfært fyrir því sem upp á vantar í samræmi við listaverð hjá N1 að viðbættu þjónustuálagi.

 • Óskilamunir

  Ef þú verður fyrir því óláni að gleyma einhverjum af eigum þínum í bíl frá okkur gerum við að sjálfsögðu hvað við getum til að aðstoða þig við að finna hlutina. Allir óskilamunir sem eftir verða í bílaleigubílum eru teknir til hliðar og reynt að koma þeim í hendur eigenda sinna. Vinsamlega athugið að Bílaleiga Akureyrar – Europcar er ekki ábyrg fyrir hlutum sem gleymast eða skildir eru eftir í bílaleigubílum.

 • Með hvaða hætti greiði ég fyrir bílaleigu?

  Framvísun kreditkorts leigutaka er skilyrði fyrir leigu sem trygging fyrir hvers konar aukakostnaði sem til getur fallið, svo sem umferðamyndavéla- og stöðumælasektum, tjónum o.þ.h. Leigutaki er þó ekki á nokkurn hátt skyldugur til þess að greiða leigu með kreditkorti sínu, heldur er framvísun þess við gerð leigusamnings einungis trygging leigusala eins og að ofan greinir. Fyrirtæki sem gert hafa við okkur samning um fyrirtækjaþjónustu hafa alla jafna kost á að vera í reikningsviðskiptum.

 • Verð ég að skila bílnum aftur á sömu útleigustöð og leiga hefst á og hver er verðmunur ef skilað er á öðrum stað?

  Þér er velkomið að skila bílnum á annari útleigustöð en þeirri sem þú leigðir bílinn á. Til að sjá verðið getur þú valið viðkomandi útleigustöð þegar bókað er hér á síðunni, haft samband í síma eða komið við á næstu útleigustöð okkar.

 • Hvað gerist ef ég skila bíl á öðrum afgreiðslustað en þeim sem leiga hefst á án þess að um það sé getið í leigusamningi?

  Ef bíl er skilað á öðrum afgreiðslustað en getið erum í leigusamningi áskilur leigusali sér rétt til að innheimta einstefnugjald af kreditkorti leigutaka ef þessar aðstæður koma upp.

 • Get ég skilað bíl utan opnunartíma afgreiðslustaða?

  Já, á afgreiðslustöðum okkar er að finna lúgu eða kassa þar sem hægt er að setja lykla og með því skila bílum eftir lokun afgreiðslustaða.

 • Er hægt að greiða fyrir bílaleigubíl á einum afgreiðslustað en sækja bílinn á öðrum?

  Nei, því miður gengur það ekki þar sem sýna þarf fram á kreditkort, ökuskírteini og að lágmarksaldri hafi verið náð á þeim afgreiðslustað sem leiga hefst.

 • Hvað gerist ef ég skila bíl of seint?

  Í flestum tilfellum er leiguverð reiknað eftir dagafjölda leigunnar. Því áskiljum við okkur rétt til að innheimta leiguverð eins dags fyrir hvern dag sem skilað er of seint.

 • Get ég keypt viðbótartryggingar?

  Já, þú getur keypt viðbótartryggingar þegar bókað er hér á vefnum eða við upphaf leigu. Lesa má meira um tryggingar hér.

 • Þarf ég að skoða ástand bílsins við upphaf leigu?

  Það er ágæt regla að skoða bílinn áður en lagt er í hann og kanna hvort okkur hafi yfirsést einhver skemmd eða tjón. Ef þú sérð eitthvert slíkt ráðleggjum við þér að láta starfsfólk okkar vita til að koma í veg fyrir vandræði þessu tengdu.

 • Hvaða skilríki, pappíra eða kort þarf ég að sýna við upphaf leigu?

  1. Gilt ökuskírteini ásamt því að leigutaki þarf að hafa haft ökuskírteini í að minnsta kosti eitt ár.
  2. Kreditkort leigutaka sem er í gildi þegar leiga hefst.

 • Get ég leigt bíl ef ég gleymi ökuskírteininu?

  Nei, því miður. Það er skilyrði að framvísa gildu ökuskírteini ef leigja á bíl.

 • Ég hef glatað ökuskírteini mínu, get ég framvísað öðrum pappírum?

  Undir sérstökum kringumstæðum er hægt að framvísa yfirlýsingu frá sýslumanni hafi ökuskírteini verið stolið eða því glatað.

 • Þarf að hafa náð ákveðnum aldri til að leigja bíl?

  1) Lágmarksaldur leigutaka/ökumanns er 20 ár og þarf viðkomandi að hafa haft ökuskírteini í minnst eitt ár.
  2) Lágmarksaldur leigutaka/ökumanns lúxusbílsbíls er 25 ár og þarf viðkomandi að hafa haft ökuskírteini í minnst eitt ár.
  3) Leigutaki/ökumaður stærri bifreiða sem samkvæmt lögum hverju sinni þarf aukin ökuréttindi til að aka (meirapróf / rútupróf) skal framvísa ökuskírteini sem uppfyllir slík skilyrði við gerð leigusamnings.

 • Get ég bókað og greitt fyrir bílaleigubíl þrátt fyrir að annar aðili muni vera ökumaður bílsins?

  Nei, aðalökumaður og korthafi verða að vera sá sami. Athugið að hægt er að greiða fyrir viðbótarökumann.

Bókanir á netinu

 • Hvað er innifalið í netverðum?

  Í netverðum á heimasíðu Bílaleigu Akureyrar eru innifalin öll lögbundin gjöld vegna viðkomandi bókunar. Í verðtilboðum er meðal annars eftirfarandi innifalið:

  • 24% virðisaukaskattur
  • Ótakmarkaður kílómetrafjöldi eða takmarkaður kílómetrafjöldi (tilboð)
  • Flugvallagjald ef við á
  • Einstefnugjald ef við á
  • Slysatrygging ökumanns og farþega
  • Lögbundin ábyrgðartrygging gagnvart þriðja aðila
  • CDW kaskótrygging
  • TP þjófnaðartrygging
 • Hvað þarf ég að vita um tryggingar?

  Eigin áhætta vegna kaskótryggingar (CDW) er breytileg og fer eftir bílaflokki. Í boði er meðal annars að kaupa súper kaskótryggingu (SCDW) og með því lækkar eigin áhættu leigutaka verulega. Athugið að engin trygging bætir skemmdir á undirvagni bifreiðar eða skemmdir vegna aksturs í ám eða vötnum. Leigutaki er að fullu ábyrgur fyrir slíku tjóni. Lesa má meira um tryggingar og þá tryggingapakka sem við bjóðum hér.

 • Eru einhver óvænt aukagjöld sem þarf að greiða þegar bíllinn er sóttur?

  Nei, í netverðum eru öll gjöld innifalin og þau talin upp í bókunarstaðfestingu. Aðeins utanaðkomandi breytingar svo sem skattahækkanir yfirvalda og/eða aðrar slíkar álögur geta haft áhrif á staðfest verð.

 • Get ég skoðað verð án þess að bóka bíl?

  Já, með því að fara í gegn um þau skref sem farið er í gegnum til að bóka bíl færðu verðdæmi sem miðar við þær óskir sem þú velur. Fyrst velur þú ferðaupplýsingar, því næst bílaflokk og aukahluti og þá birtast upplýsingar um verð. Ef þú kýst að bóka bíl á því verði sem gefið er upp velur þú einfaldlega gula hnappinn sem segir Ganga frá bókun.

 • Hvernig veit ég að bókun mín er staðfest?

  Þegar þú hefur farið í gegnum skrefin í bókunarferlinu birtist staðfestingarsíða þar sem þú sérð staðfestingarnúmer og allar aðrar upplýsingar um þína bókun, s.s. dagsetningar, útleigu- og skilastaði, bílaflokk, aukahluti og verð. Að sama skapi færðu sendan tölvupóst með þessum sömu upplýsingum. Við mælum með því að viðskiptavinir visti bæði staðfestingarsíðuna og tölvupóstinn í síma sinn eða prenti út.

 • Get ég breytt eða afbókað pöntun?

  Já, þér er velkomið að afbóka eða gera breytingar á pöntun svo framarlega sem það er gert sólarhring áður en ráðgert er að leiga hefjist. Fyrirfamgreiddum bókunum er aðeins er hægt að breyta eða falla frá með því að hafa samband símleiðis við þjónustuver okkar á skrifstofutíma (8-17 virka daga) í síma 461-6000. Athugaðu að afbókunarskilmálar um vefsölu gætu átt við þína bókun.

 • Get ég bókað aukahluti og viðbótartryggingar á netinu?

  Já, á netinu er hægt að bóka aukahluti og viðbótartryggingar. Þegar þú velur hvernig bíl þú vilt bóka getur þú einnig valið aukahluti og viðbótartryggingar. Vinsamlega athugið að greiða þarf aukalega fyrir þessa hluti og/eða tryggingar.

 • Hvernig verndar Bílaleiga Akureyrar persónu- og kreditkortaupplýsingar sem gefnar eru upp við bókun?

  Bókunarvélin okkar er staðsett á öruggum netþjóni sem tryggir örugga meðferð upplýsinga. Vefsíðan notast við SSL-samskiptareglur sem dulkóðar öll samskipti milli tölvunnar þinnar og netþjóns okkar sem tryggir að ekki á að vera hægt að brjótast inn í þær upplýsingar sem þar fara á milli. Sjálf sýslum við ekki með kortaupplýsingarnar þínar á síðunni. Þegar þú ferð í greiðsluskref í bókunarvélinni munt þú flytjast á örugga greiðslusíðu hjá færsluhirði okkar til að ljúka við greiðslu.

 • Hvernig er leiguverð reiknað?

  Leiguverð er reiknað eftir þeim forsendum sem þú gefur upp við bókun. Verð inniheldur öll gjöld og aukahluti sem valdir eru þegar bíll er bókaður. Sé þess óskað fara starfsmenn okkar yfir verð útreikning með þér þegar bíll er sóttur.

 • Hvað gerist ef ég lendi í tjóni?

  Eigin áhætta leigutaka er mismunandi og fer eftir bílaflokki. Starfsfólk okkar veitir þér upplýsingar um eigin áhættu miðað við þann bílaflokk sem þú kýst að leigja. Hægt er að lækka eigin áhættu með viðbótartryggingu. Ef tjón verður, greiðir leigutaki áætlaðan viðgerðarkostnað og önnur gjöld sem af tjóninu hljótast. Verði kostnaður lægri en reiknað var með í upphafi er mismunurinn endurgreiddur til leigutaka.

 • Hvernig finn ég þá útleigustöð sem er næst mér?

  Til að finna þá útleigustöð sem hentar þér best velur þú tengilinn Afgreiðslustaðir hér á síðunni. Þá birtist yfirlit yfir allar útleigustöðvar okkar á Íslandi.

 • Afhendið þið bíla einungis á afgreiðslustöðum?

  Alla jafna eru bílar afhentir á afgreiðslustöðvum okkar nema um annað sé sérstaklega samið.

 • Get ég séð hvaða bílar eru í boði á hverjum afgreiðslustað?

  Í öðru skrefi bókunarferilsins getur þú séð hvaða bílar eru í boði á þeirri útleigustöð sem þú velur. Suma bílaflokka er ekki hægt að bóka á netinu nema með tveggja sólarhringa fyrirvara.

 • Fæ ég þá gerð af bíl sem birtist á netinu þegar ég vel bílflokk?

  Það er ekki víst að þú fáir nákvæmlega eins bíl og birtist á netinu en þú færð sambærilegan bíl. Myndir af bílunum á netinu gefa til kynna stærð og kosti viðkomandi bílaflokks, það tryggir ekki endilega að nákvæmlega sama gerð verði leigð til þín.