Rafbílar í flotanum orðnir 500 talsins

500. rafbíllinn er af gerðinni VW ID.4
500. rafbíllinn er af gerðinni VW ID.4

Höldur - Bílaleiga Akureyrar tók á dögunum við fimmhundraðasta rafbílnum í bílaflota sinn. Hreinum rafbílum fyrirtækisins hefur fjölgað hratt síðustu ár og er það í takt við áherslur fyrirtækisins um að vera ávallt í fararbroddi í umhverfismálum og leiðandi í orkuskiptum.

Mikil fjölgun rafbíla síðustu ár
Fyrsta rafbílinn keypti Höldur - Bílaleiga Akureyrar árið 2008. Þar var um að ræða þátttöku í tilraunaverkefni með nokkrum opinberum aðilum. Árið 2012 var fyrst boðið upp á rafbíl í almennri útleigu. Sá bíll var að gerðinni Mitsubishi i-Miev og var drægnin um 80km. Árið 2017 voru rafbílarnir 19 talsins, árið 2020 voru þeir 124 og í lok febrúar 2023 voru rafbílarnir í flotanum orðnir 500 talsins. Fimmhundraðasti rafbíllinn var af gerðinni VW ID4 en fyrirtækið býður fjölbreytt úrval rafbíla frá ýmsum framleiðendum s.s. Volkswagen, Kia, Tesla, Polestar, Mercedes-Benz, Audi, Hyundai, Maxus, Skoda, Renault, Nissan og Hongqi.

Uppbygging hleðsluinnviða
Á síðustu árum hefur fyrirtækið einnig unnið að uppbyggingu hleðsluinnviða með stækkun heimtauga og uppsetningu á 60 hleðslustöðvum á sex starfsstöðvum víða um landið.

Viðurkenning frá Europcar Group

Höldur- Bílaleiga Akureyrar umboðsaðili fyrir Europcar á Íslandi, hlaut verðlaun fyrir góðan árangur í sjálfbærri þróun á heimsráðstefnu Europcar Mobility Group sem haldin var í Berlín í byrjun mars. Fyrirtækið var þar verðlaunað fyrir framúrskarandi vinnu við uppbyggingu innviða er snúa að orkuskiptum sem og fjölda rafbíla í flotanum en Europcar á Íslandi er í dag með flesta rafbíla af öllum aðildarlöndum Europcar.


“Það er frábært að ná þeim áfanga að vera komin með yfir 500 rafbíla í flotann segir Steingrímur Birgisson Forstjóri Hölds- Bílaleigu Akureyrar. Rafbílum hefur fjölgað hratt síðustu ár og úrvalið aukist til muna. Við bjóðum rafbíla frá öllum helstu framleiðendum bæði í langtíma- og skammtímaleigu. Að auki bjóðum við uppá mikinn fjölda vistvænna bíla og er fjöldi rafbíla sem og vistvænna bíla nú um 26% af heildarflota okkar. Fyrirtækið hefur verið leiðandi í orkuskiptum bílaflotans hér á landi og er með stærsta hlutfall rafbíla til leigu á Íslandi í dag.
Þau verðlaun sem við hlutum nú frá Europcar sanna að við erum ekki aðeins leiðandi í orkuskiptum á Íslandi heldur einnig í öllum þeim löndum sem Europcar starfar í á heimsvísu. Verðlaunin eru gríðarleg viðurkenning á okkar starfi.

Fyrirtækið leggur ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð og að starfa í sátt við umhverfið og er fyrsta og eina bílaleigan til þess að hljóta vottun samkvæmt ISO-14001 umhverfisstjórnunarstaðlinum.