Höldur - Bílaleiga Akureyrar kaupir 70 Kia rafbíla

Kristmann Freyr Dagsson - Öskju og Pálmi Viðar Snorrason - Bílaleigu Akureyrar, við einn af rafbílun…
Kristmann Freyr Dagsson - Öskju og Pálmi Viðar Snorrason - Bílaleigu Akureyrar, við einn af rafbílunum. Mynd aðsend.

Höldur – Bílaleiga Akureyrar keypti nýverið 70 Kia E-Niro rafbíla af bílaumboðinu Öskju. Bílarnir eru með yfir 450 km drægi við bestu aðstæður. Þeir verða boðnir bæði í langtímaleigu sem og í skammtímaleigu til viðskiptavina Hölds.

„Við höfum lagt miklar áherslu á orkuskipti í okkar bílaflota undanfarið. Núna eigum við 837 raf- eða tvinnbíla sem er um 15% af bílaflota okkar. Við stefnum að því að á næsta ári verðum við komin upp í 25%,“ segir Steingrímur Birgisson framkvæmdastjóri Hölds-Bílaleigu Akureyrar.

Bílaleigan keypti nýverið 70 rafbíla af gerðinni Kia-Niro og eru flestir komnir til landsins og á götuna. Steingrímur segir að um sé að ræða stærstu einstöku kaup hér á landi á rafbílum á einu bretti. „Við höfum smám saman verið að fjölga umhverfisvænum bílum í okkar bílaflota og vildum gjarnan gera það hraðar. Það sem m.a. tefur er að innviðir hér og hvar um landið við hótel og gistiheimili eru ekki til staðar, það vantar fleiri hleðslustöðvar,“ segir Steingrímur.

Hann segir þeim viðskiptavinum sem vilja leigja rafbíla fara heldur fjölgandi en ennþá er það bara innlendi markaðurinn sem nýtir sér þá bíla. Erlendir ferðamenn sem fara vítt og breytt ná ekki að nýta rafbíla þar sem þeir geta ekki hlaðið þá við gististaði sína. Steingrímur vonar að úr því rætist en Orkusjóður hafi auglýst styrki til gististaða sem vilja byggja upp hleðslustöðvar við fyrirtæki sín.

Mikil fjárfesting
Steingrímur segir að vissulega sé dýrt að koma upp hleðslustöðvum. Höldur-Bílaleiga Akureyrar hefur undanfarin misseri staðið í uppbyggingu á slíkum stöðvum. Við nýjar höfuðstöðvar fyrirtækisins í Reykjavík, í Skútuvogi 8 er búið að setja upp 26 stöðvar en gert ráð fyrir við uppbygginguna að hægt verði að fjölga þeim upp í 100. Við Reykjavíkurflugvöll voru settar upp 6 hleðslustöðvar og þær eru jafnmargar á Akureyri, en dreifast á þrjá staði.

„Við erum með 38 hleðslustöðvar núna og ljóst að við munum fjölga þeim umtalsvert á næstunni,“ segir Steingrímur. Fjárfesting við uppbygginguna nemur um 50 milljónum króna, en 6 til 8 milljóna króna styrkur fékkst úr Orkusjóði.