Höldur Open 2025

Sigurvegarar á Höldur open golfmótinu 2025
Sigurvegarar á Höldur open golfmótinu 2025

Hið árlega Höldur Open golfmót fór fram á Jaðri á Akureyri á föstudag og laugardag. Mótið hefur verið haldið árlega síðan 1987, en lengi vel hét það Mitsubishi Open og síðar Volkswagen Open. Líkt og áður var uppselt í mótið en alls tóku 212 kylfingar þátt. Nýr samstarfsaðili Hölds við framkvæmd mótsins eru Skógarböðin en KIA er einnig bakhjarl mótsins líkt og undanfarin ár.

Veðrið lék við þátttakendur á Jaðarsvelli sem hefur líklega aldrei verið í jafn góðu standi og þessa dagana. Á meðfylgjandi myndum sem Axel Þórhallsson tók má vel fanga þá góðu stemningu sem ríkti á meðal kylfinga um helgina.

Á laugardagskvöld fór fram glæsilegt lokahóf þar sem veitt voru verðlaun fyrir fimm efstu sætin, nándaverðlaun veitt fyrir allar par 3 holur báða daga, ásamt lengstu upphafshöggum karla og kvenna báða daga. Enginn kylfingur vann frí afnot af bíl í eitt ár með því að fara holu í höggi, en einn kylfing vantaði þó aðeins 68 cm upp á það. Þá var bryddað upp á ýmsu skemmtilegu og sem dæmi gátu þeir kylfingar sem slógu í vatnið á fjórðu og/eða sextándu holu skráð sig í pott og freistað þess að vinna þriggja mánaða kort í Skógarböðin en fjórir heppnir keppendur fengu slík kort.

Sigurvegarar mótsins að þessu sinni voru þeir Gústaf Orri Bjarkason og Arnar Guðmundsson með 85 punkta. Þeir Orri Björn Stefánsson og Egill Anfinnsson Heinesen lentu í öðru sæti með jafn marga punkta en færri punkta á síðustu 9 holunum. Í þriðja sæti urðu svo Steinmar Rögnvaldsson og Guðrún Sigurðardóttir með 84 punkta. Öll úrslit má sjá hér neðst í fréttinni.

Við þökkum þátttakendum innilega fyrir komuna á mótið og hlökkum til að gera skemmtilegt mót enn betra á næsta ári.

Höldur-Bílaleiga Akureyrar er öflugur styrktaraðili íþróttastarfs á Íslandi og golfklúbbar eru þar engin undantekning. Fyrirtækið er í dag með um 110 samstarfssamninga við íþróttafélög um allt land og eru þónokkrir golfklúbbar landsins með slíka samninga. Flestir slíkir samningar fela í sér golfbílasamstarf eins og lesa má um í nýlegri grein á golf.is.

Efstu sætin:

1. sæti – Gústaf Orri Bjarkason & Arnar Guðmundsson 85 punktar
2. sæti – Orri Björn Stefánsson & Egill Heinesen 85 punktar
3. sæti – Steinmar Rögnvaldsson & Guðrún Sigurðardóttir 84 punktar
4. sæti – Huginn Rafn Arnarson & Markús Eyþórsson 84 punktar
5. sæti – Jón Viðar Þorvaldsson & Einar Rafn Eiðsson 83 punktar

Föstudagur:

Næst holu 4.hola – Jón Baldursson 228 cm
Næst holu 8.hola – Óli Magnússon 211cm
Næst holu 11.hola – Sólveig María Árnadóttir 5,5 cm
Næst holu 14.hola – Arnar Oddsson 189 cm
Næst holu 18.hola – Eyþór Pálsson 48 cm
Lengsta upphafshögg, 6.hola kvenna – Birna Baldursdóttir
Lengsta upphafshögg, 15.hola karla – Baldur Jónsson

Laugardagur:

Næst holu 4.hola – Jón Birgir Guðmundsson 239 cm
Næst holu 8.hola – Einar Sigurjón Oddsson 261 cm
Næst holu 11.hola – Kjartan Sigurðsson 153 cm
Næst holu 14.hola – Georg Haraldsson 104 cm
Næst holu 18.hola – Kristján Már Guðmundsson 68 cm
Lengsta drive 6.hola kvenna – Anna Jódís Sigurbergsdóttir
Lengsta drive 15.hola karla – Víðir Steinar Tómasson

 

Golfmót Hölds á Akureyri

Bíll merktur Europcar - Bílaleigu Akureyrar